Víknaslóðir
Víknaslóðir eru um 60 km ganga milli Borgarfjarðar (eystri) og Seyðisfjarðar.
Það er þetta fína walkumentary líka sem að Edda setti saman:
Við Edda gengum Víknaslóðir sumarið 2025 frá Borgarfirði eystri til Seyðisfjarðar. Um 60 kílómetra ganga í frábæru veðri, gegnum Brúnavík, Húsavík og Loðmundarfjörð. Við mættum nánast engum – nema ráðherrum, pallbílamönnum og sjálfum okkur.
Við lögðum af stað frá Bakkagerði um ellefuleytið og fórum yfir Krossfjall og inn í Brúnavík. Þaðan héldum við áfram í Breiðavík þar sem Halla Gunnarsdóttir, nýkjörinn formaður VR, tók á móti okkur í skálanum.
Eftir stutt spjall í Breiðuvík héldum við áfram framhjá Gæsavötnum og inn í Húsavík. Þar gistum við eina nótt. Við fórum sein af stað daginn eftir – Þórhallur skálavörður var mættur og við spjölluðum lengi við hann og hina göngugarpana.
Svo mætti Logi Már háskólamálaráðherra ásamt eiginkonu sinni Arnbjörgu – þau komu á spekkuðum rafmagnsfjallahjólum og tjölduðu við hliðina á okkur. Logi heimtaði að borga aðstöðugjaldið, sagðist ætla að elda sjálfur.
Við héldum áfram inn í Loðmundarfjörð og mættum þremur pallbílamönnum á hæðinni sem sátu í sólinni með bjór. Þeir hvöttu okkur til að sleppa malarstígnum og taka stikuðu leiðina niður. Það reyndist heldur brött leið og Edda var orðin þreytt eftir blöðrurnar frá deginum áður. En voltaren, íbúfen og grænt pestó með feyki gerði sitt.
Við slepptum skálanum í Loðmundarfirði. Pallbílamennirnir gáfu okkur bjór, collab og poka af austfirskri ýsu. Jón, einn þeirra, sagðist hafa þvergengið allt svæðið og taldi glórulaust að fara stikuðu leiðina yfir Hjálmárdalsheiði. Við ákváðum samt að halda okkur við merkingarnar.
Á toppnum í um 600 metra hæð skrifuðum við í gestabókina. Niðurleiðin gekk hratt – Fossbrekkur, Skógarhjallinn og síðustu metrarnir niður í Seyðisfjörð.
Síðustu kílómetrarnir voru erfiðastir. Kindur eltu okkur og rigningin kom rétt áður en við kláruðum. En þetta var ótrúleg ferð. Það er ákveðið gæðamerki að eina fólkið sem við mættum á leiðinni voru hæstvirtir embættismenn.
